Um mótið

4.flokkur og 3. flokkur
Stelpur og strákar
11 manna bolti
Íslensk og erlend lið

Leikir
5-6 leikir á hvert lið, oftast 6 leikir.
Öll lið keppa um sæti á sunnudegi/lokadegi.

Fótbolti og skemmtun
Fyrir utan fótboltann þá er margt til gamans gert á Síminn Rey Cup. Ballið er mikil upplifun og alltaf mikil stemming.  Þekktir tónlistarmenn og DJ-ar spila á ballinu.
Grillpartý í Fjölskyldugarðinum, sundlaugarpartý í Laugardalslaug og fleira gerir mótið enn skemmtilegra. Það er því nóg um að vera öll kvöld þegar fótboltinn er búinn.

Hádegisverður (fyrir þau lið sem þess óska) og kvöldmaturinn á Síminn Rey Cup er á Hilton Reykjavík Nordica. Góður morgunmatur er í skólunum sem gist er í við Laugardalinn.

Stjórn Rey Cup 2017
Formaður:  Magnús Grétarsson
Gjaldkeri: Baldur Úlfar Haraldsson
Bára Yngvadóttir
Ásmundur Gíslason
Alfreð G, Barregaard
Hildur Björg Hafstein

Fyrirspurnir sendist á reycup[at]reycup.is

Upplýsingar


Gisting, fæði og keppnisfyrirkomulag
Öll aðstaða á mótinu er í göngufæri frá völlunum í Laugardal. Gisting er í skólum í kringum Laugardalinn. Lið utan af landi og erlendis frá gista í skólunum en einnig gista fjölmörg lið af höfuðborgarsvæðinu. 

Einn farastjóri þarf að gista með hverju liði. 

Morgunmatur er í skólum sem gist er í. Hádegisverður (fyrir þau lið sem eru skráð í hann) og kvöldverður eru í Hilton Reykjavík Nordica.

Leikir eru spilaðir fimmtudag, föstudag og laugardag kl. 08:00 -19:00. Á sunnudegi eru leiknir úrslitaleikir frá kl. 8:00-15:00.

Gist er í fimm skólum umhverfis Laugardalinn. 


Reglur

Mótsreglur

1.   Leikreglur

Leikið er í samræmi við reglur FIFA og þar sem við á í samræmi við leikreglur Knattspyrnusambands Íslands.

2.   Keppnisfyrirkomulag

Liðin verð dregin í 3ja til 6 liða riðla eftir fjölda þátttökuliða í hverjum flokki. Liðin í riðlunum leika hvert við annað. Staða í riðlunum ræðst af fjölda stiga sem hvert lið hefur áunnið sér eins og hér segir:

3 stig fyrir sigur

1 stig fyrir jafntefli

0 stig fyrir tap

Ef tvö eða fleiri lið hafa sama stigafjölda, verður lokastaðan ákveðin með eftirfarandi hætti:

a.            Markamismunur

b.            Flest skoruð mörk

c.            Innbyrðis viðureignir

d.            Ef niðurstaða fæst ekki með þessum hætti ræður hlutkesti.

Leikjaniðurröðun er til viðmiðunar. Þjálfarar verða að fylgjast með því í Síminn Rey Cup miðstöðinni hvort breytingar hafa orðið á leikjaniðurröðun. 

Efsta lið í hverjum riðli leikur til úrslita.

Ef jafnt er eftir venjulegan leiktíma í úrslitaleikjum, fer fram vítaspyrnukeppni, 3 víti á lið og síðan bráðabani, í samræmi við reglur FIFA.

3.   Flokkaskipting

Síminn Rey Cup fylgir alþjóðlegri flokkaskiptingu sem felur í sér að hver árgangur myndar lið, t.a.m. allir fæddir árið 2000 eru saman í liði og kallast flokkurinn U16.  Síminn Rey Cup  gerir þó undantekningu á þessu og heimilar að lið fylgi íslenskri flokkaskiptingu, þ.e. 13 og 14 ára teljast í 4. flokki og 15 og 16 ára í 3ja flokki. Umsóknum um lið þar sem flokkaskipting er ekki sú sama og hjá KSÍ svarar mótstjórn sérstaklega. Aldrei skulu þó fleiri en þrír leikmenn úr næsta flokki þar fyrir ofan leika hverju sinni.  Lið sem samþykkt hefur verið til keppni af mótsstjórn telst löglegt.

4.   Leiktími

2 x 25 mínútur, nema annað sé ákveðið og tilkynnt fyrirfram. Leikhlé er 5 mín.

5.   Fjöldi leikmanna

Hverju liði er heimilt að nota ótakmarkaðan fjölda leikmanna, sem leyfir leikmanni að koma inn á aftur eftir útafskiptingu. Innáskiptingar fara fram við miðlínu eftir að dómara hefur verið gert viðvart og hann hefur gefið leyfi. Leikmaður má aðeins spila með því liði sem hann er skráður í áður en mótið hefst.

6.   Leikir            

a.     Áður en mótið hefst skal mótsstjórn fá í hendur nafnalista liðanna með kennitölu. Tilgreina þarf hvaða leikmenn skipa viðkomandi lið. Mótsstjórn getur leyft breytingar á leikskýrslu sé þess óskað af forsvarsmönnum liðsins.

b.     Skylda er að nota legghlífar.

c.     Óheimilt er að leika í skóm með skrúfuðum tökkum.

7. Lið mætir ekki til leiks

Lið sem ekki mætir til leiks telst hafa tapað leiknum 3:0. Lið sem ekki mætir til leiks í tveimur leikjum mun, nema mótstjórn ákveði annað, vera vísað úr keppninni og öll úrslit þess þurrkuð út af stigatöflu.

8. Leikvellir

Leikið er á grasvöllum og gervigrasi.

9. Dómarar

Dómarar eru valdir af mótstjórn Síminn Rey Cup. Hvern leik dæma tveir dómarar.  Úrslitaleiki dæmir einn dómari ásamt tveimur aðstoðardómurum.

10. Mótsstjórn

Mótsstjórn er skipuð af stjórn Síminn Rey Cup.

11. Úrskurðanefnd

Úrskurðanefnd er skipuð af mótsstjórn og hefur það hlutverk að fjalla um álitaefni sem vísað er til hennar og varða kappleiki. 

 12. Mótmæli og kærur

Skrifleg mótmæli skal leggja fram við úrskurðanefnd í Síminn Rey Cup miðstöðinni innan einnar klukkustundar frá því að leik lauk. Úrskurðað er um mótmæli og/eða kærur af úrskurðanefnd og viðurlög ákveðin. Ákvörðun hennar verður ekki áfrýjað. Leikmanni sem vísað er af leikvelli er óheimilt að taka þátt í næsta leik á eftir. Tvö gul spjöld  eða rautt spjald þýða sjálfkrafa bann í næsta leik.

13. Verðlaun

Sigurvegarar fá Síminn Rey Cup bikarinn og hver leikmaður í úrslitaleik verðlaunapening. Áhersla verður lögð á prúðmannlegan leik og jákvæð viðhorf meðan á mótinu stendur.


Lið

Á Rey Cup 2016 tóku um 90 lið þátt, samtals um 1300 keppendur.